Fótbolti

Capello vill halda áfram - leikmenn voru þreyttir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello vill halda áfram starfi sínu sem landsliðsþjálfari Englands. Þó er óvíst hvort að afstaða enska knattspyrnusambandsins hafi breyst.

Fyrir mót ákvað sambandið að gera nýjan samning við Capello sem tryggir að hann verður áfram þjálfari fram yfir úrslitakeppni EM 2012.

En eftir skelfilegt gengi enska landsliðsins á HM í Suður-Afríku er ljóst að framtíð Capello er í hættu.

„Ég ræddi við Dave Richards [formann landsliðsnefndar Englands] hjá enska knattspyrnusambandinu. Hann sagði mér að hann þyrfti tvær vikur í viðbót til að ákveða sig," sagði Capello á blaðamannafundi í dag. „Ég sagði að ég get verið landsliðsþjálfari Englands áfram á næsta tímabili en það eru þeir sem þurfa að ákveða sig."

Capello var líka spurður að því hvað hefði farið úrskeðis hjá enska landsliðinu í Suður-Afríku en England tapaði í gær, 4-1, fyrir Þýskalandi í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Ég held að allir leikmenn Englands hafi verið mjög þreyttir. Þjálfararnir sögðu mér að líkamlegt ástand þeirra væri ekki gott og að þeir líktust ekki þeim leikmönnum sem þeir eru venjulega."

Hann var einnig spurður hvort að 4-4-2 leikkerfið sem hann notaðist við hafi verið gamaldags.

„Það er hægt að velja um ólík leikkerfi en öll kerfin krefjast þess að leikmenn séu í góðu formi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×