Lífið

Georg og félagar í nýrri úrklippubók

í séð og heyrt Á meðal þess sem finna má í bókinni er mynd af Ólafi Ragnari og Georg á forsíðu Séð og heyrt.
í séð og heyrt Á meðal þess sem finna má í bókinni er mynd af Ólafi Ragnari og Georg á forsíðu Séð og heyrt.

„Þetta er mjög fallegur pakki,“ segir Ragnar Bragason, leikstjóri Nætur-, Dag- og Fangavaktarinnar.

Vaktabókin kemur út í dag. Viðhafnarútgáfa af kvikmyndinni Bjarnfreðarson fylgir bókinni sem inniheldur að sögn Ragnars alls kyns dót sem féll til við gerð myndarinnar og þáttanna.

„Það er ýmislegt sem hefur ekki komið fram; bréf, póstkort og alls konar hlutir sem við höfum unnið en hafa ekki birst í seríunum,“ segir Ragnar.

í nýju ljósi Bókin varpar nýju ljósi á félagana Georg, Ólaf Ragnar og Daníel.

„Þessu var safnað saman í úrklippubók. Bókin er tvískipt. Helmingurinn er alls konar dót sem gefur okkur skemmtilega mynd af þessum persónum og þeirra lífshlaupi. Seinni hlutinn er handritið af Bjarnfreðarsyni í heild sinni.“

Frosti Gnarr, stjúpsonur Jóns Gnarr, hannaði bókina og tók efnið saman ásamt Ævari Grímssyni, einum af fimmmenningunum á bak við þættina og myndina.

En er ekki búið að mjólka það sem hægt er að mjólka úr Vöktunum?

„Jú, ég held það nú. Þetta er lokahnykkurinn. Okkur fannst þegar við fórum að skoða efnið sem strákarnir voru búnir að vinna að það þyrfti að koma út fyrir nörd­ana. Þetta verður líka í takmörkuðu upplagi – ég held að það séu bara 3.000 eintök gerð.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×