Lífið

Heiðra Keith Richards á 67 ára afmælisdaginn

Strákarnir í Stóns virða ekki fjöldatakmarkanir í lyftum.fréttablaðið/daníel
Strákarnir í Stóns virða ekki fjöldatakmarkanir í lyftum.fréttablaðið/daníel

Hljómsveitin Stóns flytur lög Rolling Stones og þykir gríðarlega öflug á því sviði. Hljómsveitin hyggst heiðra hinn ódrepandi Keith Richards í kvöld, en hann fagnar 67 ára afmælinu sínu í dag.

„Keith Richards fæddist einmitt á laugardegi. Þannig að þetta smellur skemmtilega saman hjá okkur,“ segir hinn stimamjúki Birgir Ísleifur Gunnarsson, meðlimur Rolling Stones-ábreiðuhljómsveitarinnar Stóns.

Stóns kemur fram á Sódómu í kvöld í tilefni af 67 ára afmæli Keith Richards – læknaundursins – gítarleikara Rolling Stones. Ýmsir reynsluboltar úr tónlistarheiminum eru í hljómsveitinni Stóns. Á meðal þeirra eru Björn Stefánsson, trommuleikari Mínuss, sem syngur. Hann býr nú í Danmörku þar sem hann leggur stund á nám í leiklist, en Birgir er ekki bjartsýnn á að hann klári námið. „Ég vona að hann útskrifist þaðan, að hann nái þessu,“ segir hann. „Bjössi er fastur í karakter Jaggers. Mér finnst það nánast vera kraftaverk ef kennararnir sleppa honum í gegn.“

Birgir segir hljómsveitina Stóns hafa lent í vandræðum með hegðun Bjössa á æfingum, sem er einstaklega sannfærandi í hlutverki Jaggers. „Þetta var skemmilegt til að byrja með, en það er erfitt þegar hann er algjörlega pikkfastur í þessu,“ segir Birgir. „Þetta reynir auðvitað á. Við lentum í veseni þegar við spiluðum í Mosfellsbæ. Það urðu deilur baksviðs og það munaði litlu að ég gengi úr bandinu.“

Bjarni M. Sigurðarson, gítarleikari Mínuss og Stóns, verður vafalaust stjarna kvöldsins, enda í hlutverki afmælisbarnsins. „Keith sjálfur gasprar ekki mikið – hann velur sér orðin,“ segir Birgir. „En það sem hann segir er mjög sniðugt. Bjarni er svipaður honum að því leyti.“

En hefur Bjarni þurft á blóðskiptiaðgerð að halda? „Hann er svo hrikalega ungur enn þá, miðað við Keith. Ég held að hann hafi ekki farið í fyrstu blóðskiptiaðgerðina fyrr en hann varð fertugur. Þannig að það sleppur enn þá.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.