Fótbolti

Leiftursóknir Þjóðverja lögðu Englendinga

MYND/AP

Englendingar hafa lokið keppni á heimsmeistaramótinu í Suður Afríku en þeir lutu í lægra haldi fyrir Þjóðverjum í 16 liða úrslitum. Þjóðverjar skoruðu fjögur mörk en Englendingar aðeins eitt.

Thomas Muller skoraði tvö mörk fyrir Þjóðverja, Lukas Podolski setti eitt og Miroslac Klose annað. Matthew Upson gerði eina mark Englendinga en þeir voru greinilega hlunnfarnir þegar dómarinn ákvað að dæma fullkomlega löglegt mark ógilt.

Þjóðverjar voru komnir í tvö núll eftir hálftíma leik en á 37. mínútu galopnaði Upson leikinn með góðum skalla. Aðeins mínútu síðar töldu Englendingar sig hafa jafnað leikinn þegar Lampard skaut glæsilegu skoti í slánna og inn. Dómarinn var hins vegar ekki á því að dæma markið gilt þrátt fyrir að allir á vellinum hafi séð boltann langt inni í markinu.





Greinilega sést á þessari mynd að boltinn er langt inni í markinu.MYND/AP

Í seinni hálfleik reyndu Englendingar að sækja af fullum krafti sem gaf Þjóðverjum tækifæri á skyndisóknum og refsuðu þeir grimmt með skyndisóknum og skoruðu tvö. Þetta mun vera stærsta tap Englendinga í sögu úrslitakeppninnar.

Þjóðverjar mæta nú annaðhvort Argentínu eða Mexíkó en liðin eigast við klukkan hálfsjö.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×