Fótbolti

Þýskir fjölmiðlar: Hefnd fyrir 1966

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Markið sem Lampard hefði átt að fá skráð á sig.
Markið sem Lampard hefði átt að fá skráð á sig. Nordic Photos / Getty Images

Þýskaland er í sæluvímu eftir 4-1 sigurinn á Englandi í 16-liða úrslitum HM í Suður-Afríku í gær. Það sást greinilega í fyrirsögnum þýsku blaðanna í dag.

Flestir eru fjölmiðlar sammála um að þetta séu makleg málagjöld fyrir úrslitaleikinn á Wembley-leikvanginum í Lundúnum á HM árið 1966. Þá vann England sigur á Þýskalandi í úrslitaleik þar sem Geoff Hurst skoraði umdeilt mark.

Frank Lampard skoraði keimlíkt mark í gær. Boltinn fór af slánni, inn fyrir marklínuna og út aftur. Markið var hins vegar ekki dæmt gilt.

Undanfarin 44 ár hefur verið mikið rætt um mark Hurst og hvort að boltinn hafi farið inn fyrir línuna eða ekki. Þjóðverjar eru handvissir um að svo hefði ekki verið.

„Nú erum við kvitt," sagði Westdeutsche Allgemeine og einnig Die Welt. „Takk fyrir knattspyrnuguð," sagði í fyrirsögn götublaðsins Bild.

Mörk af þessum toga hafa í Þýskalandi verið kölluð „Wembley-mörk". En það er nú breytt, sagði í Süddeutsche Zeitung. „Wembley er nú kallaður Bloemfontein."

„Leikurinn hefði orðið allt öðruvísi hefði markið verið dæmt gilt og staðan 2-2 á 38. mínútu," sagði ennfremur í sama blaði.

Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði að um ævintýri hefði verið að ræða og að ungt landslið Þýskalands hefði staðist sitt fyrsta alvöru próf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×