Fótbolti

Hollendingar örugglega áfram í 8-liða úrslit

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Hollendingar fagna marki Arjen Robben.
Hollendingar fagna marki Arjen Robben. AFP
Hollendingar unnu öruggan 2-1 sigur á Slóvökum í 16-liða úrslitum HM en leiknum var að ljúka. Slóvakar virtust hafa lítinn áhuga á að sækja og sigurinn nokkuð þægilegur fyrir Holland.

Arjen Robben kom Hollendingum yfir á átjándu mínútu með dæmigerðu marki. Hann var með boltann á hæægri kantinum, lék inn að miðju og skaut með vinstri fæti í nærhornið.

Hollendingar voru miklu betri út hálfleikinn en þétt vörn Slóvaka gaf fá færi á sér.

Slóvakar reyndu hvað þeir gátu til að sækja í síðari hálfleik. Maarten Stekelenburg varði frábærlega frá Robert Vittek sem skaut svo yfir skömmu seinna.

Hollendingar sköpuðu ekki mikið en kláruðu leikinn sjö mínútum fyrir leikslok. Wesley Sneijder skoraði þá eftir fínan undirbúning Dirk Kuyt. Sneijder setti boltann milli fóta varnarmanns þegar hann skoraði. Vel gert.

Slóvakar fengu þó vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Stekelenburg braut á Vittek. Hann tók vítið sjálfur og skoraði örugglega.

Það var síðasta spyrna leiksins og 2-1 sigur Hollendinga staðreynd.

Hollendingar eru því komnir áfram og þeir mæta Brasilíu eða Chile sem spila klukkan 18.30 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×