Fótbolti

Messi og Tevez í sérflokki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Diego Armando Maradona, landsliðsþjálfari Argentínu, segist ekki enn hafa séð neinn leikmann á HM sem komist í hálfkvisti við þá Lionel Messi og Carlos Tevez.

"Það hefur enginn náð að spila 30 prósent af þeim gæðum sem Messi er að sýna. Ég veit ekki hvort ég verð kallaður hrokafullur en það er enginn heldur nálægt 30 prósent af því sem Tevez er að sýna," sagði Maradona kokhraustur og stoltur af sínum mönnum.

"Carlitos hreyfir við manni þegar hann er að spila. Skiljið þið hvað ég er að fara? Og ég elska liðið mitt."

Messi hefur í gegnum tíðina verið gagnrýndur fyrir að gefa ekki allt sem hann á til landsliðsins. Maradona segir að það sé ekki upp á teningnum núna.

"Ég er þakklátur Leo því Messi er eins og hann af því hann vill vera svona. Honum líður vel, hann er hamingjusamur, nýtur fótboltans og vill spila. Það móðguðust einhverjir af því hann söng ekki þjóðsönginn en það var á þeim tíma þegar við töpuðum leikjum og engum líkar við það að tapa," sagði Maradona en hann átti gott spjall við Messi varðandi að gefa honum frjálsa stöðu í liðinu.

"Ég hafði aldrei trú á því að negla hann í einhverja stöðu. Ég vil hafa hann nálægt boltanum því það gefur okkur alltaf möguleika á að gera eitthvað. Ég sagði Messi að það hefði aldrei neinn sagt mér hvar ég ætti að spila. Þess vegna get ég ekki sagt Messi hvar hann á að spila. Hann varð því að ákveða það sjálfur hvar hann ætti að spila."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×