Enski boltinn

Andy Carroll verður í byrjunarliðinu á móti Frökkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andy Carroll.
Andy Carroll. Mynd/AP

Andy Carroll, framherji Newcastle og Jordan Henderson, miðjumaður Sunderland, verða báðir í byrjunarliði enska landsliðsins á móti Frökkum en liðin mætast á Wembley á morgun.

Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í dag og sagði ennfremur að Jack Wilshere væri meiddur og væri farinn heim eins og hann orðaði það.

„Wilshere er á leiðinni heim og Phil Jagielka er með flensu en ég held að það verði í lagi með hann," sagði Fabio Capello. Það er líka einhver óvissa í kringum Joe Hart en Capello hefur ekki miklar áhyggjur af honum.

Það er hinsvegar nokkuð óvænt að hinn 21 árs gamli Andy Carroll og hinn tvítugi Jordan Henderson fari beint inn í byrjunarliðið. Capello hefur ekki áhyggjur af hegðunarvandamálum framherjans frá Newcastle.

„Carroll er góður leikmaður og við verðum að hjálpa honum í gegnum þessi vandræði utan vallar því hann er ennþá mjög ungur. Nú þegar hann er kominn í landsliðið þarf hann að haga sér vel því núna munu allir fylgjast betur með honum. Það gera samt allir mistök og hann á eftir að bæta sig," sagði Capello aðspurður um vandræði Carroll utan vallar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×