Fótbolti

Capello búinn að velja vítaskytturnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Barry og Steven Gerrard.
Gareth Barry og Steven Gerrard. Nordic Photos / AFP

Samkvæmt enska götublaðinu The Mirror er Fabio Capello þegar búinn að ákveða hverjir munu taka víti fyrir enska landsliðið komi til þess að það þurfi að fara í vítaspyrnukeppni á HM í Suður-Afríku.

England mætir Þýskalandi í 16-liða úrslitum keppninnar á sunnudag en þeim ensku hefur oftar en ekki gengið illa í vítaspyrnukeppnum á stórmótum.

Samkvæmt fréttinni munu þeir Frank Lampard, Steven Gerrard, Wayne Rooney og James Milner hafa verið duglegir að æfa vítaspyrnur á æfingum. Fimmti maðurinn verður Gareth Barry sem var vítaspyrnusérfræðingur Aston Villa áður en hann fór til Manchester City.

Þeir Jermain Defoe, John Terry og Ashley Cole hafa einnig boðist til að vera til taks fyrir vítaspyrnukeppnina ef til þess kemur, samkvæmt sömu frétt.

Stuart Pearce á sjálfur slæmar minningar frá vítaspyrnukeppni þegar England tapaði fyrir Þýskalandi í undanúrslitum HM á Ítalíu árið 1990. Þá klúðruðu þeir Pearce og Chris Waddle tveimur síðustu spyrnum Englands. Þýskaland komst í úrslitaleikinn og vann keppnina.

Pearce er í dag aðstoðarþjálfari Capello og aðalþjálfari U-21 landsliðs Englands. Enska U-21 liðið náði góðum árangri í vítaspyrnukeppnum á EM ungmennalandsliða á síðasta sumri, þökk sé vísindalegum aðferðum sem Pearce nýtti sér.

Nú munu leikmenn fá nákvæmar leiðbeiningar um hvert þeir eigi að skjóta boltanum, samkvæmt greiningum þjálfaranna, segir enn fremur í frétt blaðsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×