Lífið

Klovn-myndin fær ágætis dóma

Klovn: The Movie er vel heppnuð að mati dönsku blaðanna B.T. og Ekstrablaðsins. B.T. gefur henni fjórar af sex og Ekstrablaðið fimm af sex.fréttablaðið/Anton
Klovn: The Movie er vel heppnuð að mati dönsku blaðanna B.T. og Ekstrablaðsins. B.T. gefur henni fjórar af sex og Ekstrablaðið fimm af sex.fréttablaðið/Anton
Klovn-mynd Caspers Christiansen og Franks Hvam var forsýnd dönskum fyrirmennum í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld. Myndin fær prýðilega dóma í dönskum blöðum og meðal annars fjórar stjörnur af sex hjá B.T.

Klovn: The Movie segir frá ferðalagi félaganna á kanóhátíð við Gudenåen-fljótið á Austur-Jótlandi. Þeir eru reyndar þar í ólíkum tilgangi; Casper er að venju á kvennafari en Frank hyggst skoða hversu hæfur hann er til að verða pabbi. Og hefur rænt tólf ára frænda Miu til að fá úr því skorið hvort það sé yfirhöfuð eitthvað fyrir hann.

Gagnrýnandi B.T. segir það augljóst að Frank Hvam og Casper séu ekki leikarar en það komi ekki að sök í myndinni. Hún sé uppfull af pínlegum atriðum eins og þeirra sé von og vísa en kannski sé „kúk og piss“-atriðum og bröndurum ofaukið. Gagnrýnandinn bætir því við að myndin sé jafngóð og meðalgóður Klovn-þáttur, hún sé ekki þeirra besta verk. „Ef þú hlóst að þáttunum áttu eftir að hlæja að myndinni,“ skrifar gagnrýnandi B.T.

Gagnrýnandi Ekstrablaðsins er hins vegar mun jákvæðari og segir Klovn-myndina vera fyndnustu mynd Dana í háa herrans tíð og skreytir dóm sinn með fimm stjörnum af sex mögulegum. Hann fer lofsamlegum orðum um myndina, segir dæmið ganga nánast fullkomlega upp og bætir því við að Klovn: The Movie sé ekki fyrir börn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.