Fótbolti

David Villa skaut Spánverjum áfram

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Spánverjar fagna marki Villa.
Spánverjar fagna marki Villa. AFP

Spánverjar komust verðskuldað áfram í átta liða úrslit HM eftir sigur á grönnum sínum í Portúgal í kvöld. David Villa skoraði eina mark leiksins.

Leikurinn byrjaði á stórsókn Spánverja og Eduardo vann yfirvinnu í markinu. Hann varði tvisvar frá Villa og einu sinni frá Torres áður en Portúgalar vöknuðu.

Þeir áttu nokkrar fínar tilraunir en ekkert sem bar af. Sóknarleikur þeirra var ekki nógu góður og enn einu sinni olli Ronaldo vonbrigðum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Villa loksins á 63. mínútu eftir stórsókn. Eduardo hafði varið vel og Villa skotið framhjá en hann skoraði loksins með skoti í slánna og inn eftir glæsilega sókn, en bara eftir að Eduardo hafði varið frá honum og Villa náð frákastinu.

Portúgalar náðu fáum sóknum eftir þetta og voru aldrei líklegir til að jafna.

Ricardo Costa fékk rautt spjald fyrir litlar sakir undir lok leiksins.

Spánverjar eru því komnir áfram og þeir mæta Paragvæ í 8-liða úrslitunum á laugardaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×