Fótbolti

Zidane og Materazzi hittust í gær í fyrsta sinn síðan á HM 2006

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane og Marco Materazzi í úrslitaleiknum á HM 2006.
Zinedine Zidane og Marco Materazzi í úrslitaleiknum á HM 2006. Mynd/AFP
Viðskipti Frakkans Zinedine Zidane og Ítalans Marco Materazzi í úrslitaleik HM í Þýskalandi 2006 gleymast seint en þau enduðu á því að Zidane stangaði Materazzi í brjóstkassann og fékk rautt spjald að launum. Þeir félagar hittust í fyrsta sinn í gær eftir að allt sauð upp úr á Ólympíuleikvanginum í Berlín 9. júlí 2006.

Zinedine Zidane er orðinn hluti af þjálfarateymi Real Madrid og var staddur í Mílanóborg í tengslum við leik AC Milan og Real Madrid í Meistaradeildinni. Þeir Zidane og Materazzi hittust á hóteli Real Madrid þangað sem að Materazzi var mætturtil að heilsa upp á vin sinn José Mourinho.

Spænska blaðið Marca skrifaði um þennan endurfund Zidane og Materazzi. Þeir stoppuðu í sporunum þegar þeir sáu hvorn annan, en heilsuðust síðan kuldalega og byrjuðu að tala saman. Andrúmsloftið lagaðist fljótlega og þeir enduruðu síðan samtalið með því að gefa hvorum öðrum faðmlag sem blaðamaður Marca heldur fram að hafi verið innilegt.

Það lítur því út fyrir að þeir Zidane og Materazzi séu því loksins búnir að grafa stríðsöxina síðan þennan örlagaríka dag í Berlín fyrir fjórum og hálfu ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×