Innlent

Orkuverð hækkar á næsta ári

Hjörleifur Böðvarsson Kvaran
Segir að Orkuveitan hafi ekki hækkað verð á rafmagni síðan árið 2005.
Fréttablaðið/Valli
Hjörleifur Böðvarsson Kvaran Segir að Orkuveitan hafi ekki hækkað verð á rafmagni síðan árið 2005. Fréttablaðið/Valli

Afar líklegt er að neytendur þurfi að greiða meira fyrir þjónustu Orkuveitu Reykjavíkur á næsta ári en þeir gera nú, að sögn Hjörleifs B. Kvaran, forstjóra Orkuveitunnar.

„Við höfum ekki hækkað verðið á rafmagni síðan 2005, þannig að það hefur í raun lækkað um 30 til 35 prósent,“ segir hann. Einnig má gera ráð fyrir að heita vatnið hækki fyrr en síðar.

„Við höfum reynt að stilla þessu í hóf á meðan ástandið er svona hjá fólki,“ segir Hjörleifur. Hann gefur ekki upp hversu mikil hækkunarþörfin er talin, enda verði það endurskoðað í ljósi aðstæðna hverju sinni.

„Stjórnin hefur sett sér stefnu um arðsemi á bilinu fimm til sjö prósent, en við reiknum ekki með því að ná þeim markmiðum í bráð og erum reyndar talsvert undir þeim,“ segir hann. Sú arðsemi eigi að nást á þremur til sjö árum.

Þó sér Hjörleifur heldur jákvæð teikn á lofti þessa dagana, sem dragi úr hækkunarþörf. Gengi krónu styrkist til að mynda og vextir lækka. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×