Enski boltinn

Diouf ánægður á Old Trafford

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Senegalinn Mame Biram Diouf, sem gárungarnir eru farnir að kalla svarta Solskjær, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Man. Utd um helgina.

Hann spilaði þá síðustu 25 mínúturnar gegn Burnley en þetta var fyrsti heimaleikur hans fyrir félagið. Hann nýtti mínúturnar sínar vel.

Diouf kom til félagsins í desember þó svo hann hefði verið keyptur síðasta sumar. Hann er þegar farinn að láta til sín taka.

Framherjinn segist vera vel kominn inn í hlutina á Old Trafford þó svo allt sé talsvert stærra í sniðum en hjá Molde.

„Ég var mjög stressaður fyrstu mínúturnar á vellinum en eftir það hugsaði maður bara um fótbolta. Maður gleymir öllu öðru þegar allt er komið á fullt," sagði Diouf.

„Ég veit ekki hvort ég spila meira. Ég ræð ekki hvort ég spila en ég þarf að vera tilbúinn ef ég skyldi fá fleiri tækifæri. Ég er búinn að koma mér vel fyrir og það hafa allir verið einstaklega góðir við mig. Það hafa ekki komið upp nein vandamál og það er frábært að læra af strákum eins og Rooney, Owen og Berbatov."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×