Lífið

Ellefu ár að ljúka við plötu

Fékk til liðs við sig þekkta einstaklinga við gerð fimmtu sólóplötu sinnar. fréttablaðið/vilhelm
Fékk til liðs við sig þekkta einstaklinga við gerð fimmtu sólóplötu sinnar. fréttablaðið/vilhelm
„Þetta bara æxlaðist þannig að þetta hefur tekið langan tíma,“ segir Sveinn Hauksson, sem var í ellefu ár að ljúka við sína fimmtu sólóplötu, Attilla, sem er nýkomin út. Lögin á plötunni eru tíu og því má segja að hann hafi að meðaltali verið í rúmt ár að ljúka við eitt lag.

„Það var bara gæluverkefni fyrir sjálfan mig að gera þessa tegund af músík. Maður er í fullri vinnu og svo koma pásur og maður heldur áfram,“ segir Sveinn og vill ekki meina að hann sé haldinn einhvers konar fullkomnunaráráttu. Tónlistin er sambræðingur úr ýmsum áttum þar sem heimstónlist, djass, fönk og gregorískur söngur koma við sögu. Sjálfum er honum illa við skilgreiningar á tónlist. „Þetta er eins og að segja að Led Zeppelin sé þungarokksgrúppa. Það er alveg út úr kortinu því hún er svo miklu meira.“

Sveinn rekur fyrirtækið Rafengi í Reykjavík en er fyrrverandi sjómaður. Tónlistina gerir hann í frístundum sínum og við gerð nýju plötunnar, sem tók 160 tíma að hljóðblanda, fékk hann til liðs við sig fjölda þekktra einstaklinga. Þar má nefna Sverri Guðjónsson, Björgvin Gíslason, Jóhann Ásmundsson, Jóhann Hjörleifsson og leikarann Arnar Jónsson. Honum til halds og trausts við upptökurnar var Arnar Guðjónsson úr poppsveitinni Leaves. „Ég efast um að ég hefði getað fengið betri mann en hann í þetta. Hann er mjög hugmyndaríkur og spilar á öll hljóðfæri,“ segir Sveinn, loksins sáttur við útkomuna. Platan er fáanleg í Eymundsson, Iðu og 12 Tónum. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.