Lífið

Safnar skóm fyrir fátæk börn

Una Hlín Kristjánsdóttir fatahönnuður safnar barnaskóm handa bágstöddum börnum á Indlandi. 
fréttablaðið/gva
Una Hlín Kristjánsdóttir fatahönnuður safnar barnaskóm handa bágstöddum börnum á Indlandi. fréttablaðið/gva
Fatahönnuðurinn Una Hlín Kristjánsdóttir hannar undir heitinu Royal Extreme. Hún stendur nú fyrir skósöfnun handa börnum á Indlandi í samstarfi við vefverslunina Worn by Worship.

Una Hlín safnar skóm fyrir börn á Indlandi. Hún hyggst fara sjálf með skóna til Indlands í janúar en hún framleiðir allar vörur sínar þar.

„Í hverfinu þar sem verksmiðjan er sér maður börn róta í ruslahaugum og vinna hörðum höndum. Það er svo súrrealískt að vinna í þessari flottu verksmiðju en rétt fyrir utan lóðina sér maður börn vinna við að bera múrsteina í 45 stiga hita og skólaus í þokkabót. Móðurhjartað verður svolítið meyrt þegar maður sér börn á aldur við manns eigið bera hlass af múrsteinum til að vinna fyrir sér,“ segir Una Hlín, sem fékk þá hugmynd að koma á skósöfnun handa börnunum þegar hún dvaldi síðast í landinu.

Una Hlín hefur verið að safna barnaskóm undanfarna mánuði en ætlar að vera sérstaklega dugleg út desember. Innt eftir því hvort hún verði ekki með mikla yfirvigt þegar hún flýgur út í janúar svarar hún neitandi. „Ég talaði við Samskip, sem hefur samþykkt að flytja farminn yfir ef þetta verður mikið magn. Svo þegar ég kem á svæðið ætla ég bara að ganga um hverfið og afhenda skóna, svolítið í anda Hróa hattar.“

Tekið er á móti skónum í verslun Royal Extreme í Bergstaðastræti 4 um helgina og eitthvað fram yfir hátíðarnar. sara@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.