Argentínumenn halda áfram að leika listir sínar á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku.
Þeir unnu sigur á Mexíkó 3-1 í skemmtilegum leik í kvöld og mæta Þýskalandi í átta liða úrslitum.
Argentína var með 2-0 forystu í hálfleik en Mexíkó var þó ekki að leika illa. Fyrsta mark leiksins hefði aldrei átt að standa þar sem Carlos Tevez var rangstæður áður en hann kom knettinum í netið. Mexíkóar mótmæltu en án árangurs. Skelfileg mistök aðstoðardómara.
Gonzalo Higuain bætti við öðru marki á 33. mínútu. Tevez skoraði svo annað mark sitt og kom Argentínu í 3-0 með stórglæsilegu marki á 52. mínútu.
Javier Hernandez minnkaði muninn á 71. mínútu en lengra komst Mexíkó ekki og Argentína vann verðskuldaðan 3-1 sigur.