Innlent

Grásleppuhrognaverð slær öll met

Grindavík.
Grindavík.
Aldrei í sögunni hefur fengist eins hátt verð fyrir grásleppuhrogn og nú og hefur verðið hækkað um sjötíu prósent frá því í upphafi síðustu vertíðar. Grásleppukarlar, sem lönduðu í Grindavík í dag, kvörtuðu þó undan aflaleysi. Á sama tíma er mokfiskerí í þorskinum og hrópað á meiri kvóta.

Um 300 bátar vegar víðs vegar um land verða á grásleppuveiðum þetta vorið en vertíðin fer óvenju snemma af stað í ár, 100 bátar eru þegar byrjaðir. Verðið er enda ævintýralegt, fyrir eina svona tunna fulla af hrognum upp úr bátnum fást yfir áttatíu þúsund krónur. Þegar búið er að salta hrognin og sía fást 190 þúsund krónur fyrir tunnuna. Örn Pálsson hjá Landssambandi smábátaeigenda segir verðið hafa hækkað um 70 prósent frá vertíðarbyrjun í fyrra.

Veiðin er hins vegar slök. Þessir voru bara með tvær tunnur eftir morguninn. Grásleppukarlarnir segjast byrja snemma í ár til að geta keppt um strandveiðivótann, en strandveiðarnar mega hefjast 1. maí.

Meðan grásleppukarlarnir kvartan undan aflaleysi hafa þeir sem eru í þorskveiðum allt aðra sögu að segja. Karlarnir fjórir á línubátnum Óla á Stað eru hér að sigla inn með átta tonna afla sem þeir veiddu í morgun, og fyllir yfir tuttugu svona ker. Verðmæti sem þetta litla skip er að færa í þjóðarbúið eftir daginn: Um þrjár milljónir króna upp úr sjó.

Fiskurinn sem karlarnir voru að landa sýndist okkur vera afskaplega vænn. Þorskarnir sumir tíu til fimmtán kíló, og veiddust rétt fyrir utan Grindavík.

Útgerðarmaðurinn var á fullu á lyftaranum og þótt hafið virðist fullt af fiski er takmarkað hvað þeim leyfist að veiða. Út um allt land er hrópað á meiri þorskkvóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×