Fótbolti

Capello heldur blaðamannafund í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands.
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands. Nordic Photos / AFP

Fabio Capello mun halda blaðamannafund í dag þar sem hann mun ræða um framtíð sína sem þjálfari enska landsliðsins.

England féll úr leik á HM í Suður-Afríku í gær er liðið tapaði fyrir Þýskalandi, 4-1, í 16-liða úrslitum keppninnar.

Eftir leikinn sagði Capello að hann myndi ekki hætta en fyrir aðeins fimm vikum síðan skrifaði hann undir nýjan samning sem tryggir að hann verði áfram landsliðsþjálfari fram yfir EM 2012 í Póllandi og Úkraínu.

„Það kemur ekki til greina," sagði Capello þegar hann var spurður hvort hann myndi hætta. „En ég vil tala við [Sir David Richards] stjórnarformanninn [hjá enska knattspyrnusambandinu] og ákveða framtíð mína þá. Ég verð að fá að vita hvort að sambandið beri traust til mín eða ekki."

Miðað við fyrstu viðbrögð úr herbúðum enska knattspyrnusambandsins er ekki útlit fyrir annað en að Capello verði áfram í brúnni.

„Okkar afstaða hefur legið ljós fyrir og í mínum huga hefur hún ekki breyst," sagði Adrian Bevington, einn forráðamanna sambandsins.

„En það er líka klárt að Fabio þarf að tala við Sir David Richards og því get ég ekki tjáð mig frekar um þetta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×