Fótbolti

Beckenbauer biður Englendinga afsökunar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þýska goðsögnin Franz Beckenbauer hefur beðist afsökunar á gagnrýni sinni á enska landsliðið. Beckenbauer sagði að Englendingar hefðu verið heimskir að vinna ekki riðilinn sinn á HM.

Beckenbauer gaf einnig í skyn að leikmenn enska landsliðsins væru útbrunnir eftir erfitt tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

"Fyrir HM átti ég von á því að England yrði eitt sterkasta lið keppninnar og jafnvel vinna mótið. Englendingar eru með frábært lið og frábæran þjálfara. Þess vegna olli frammistaða þeirra í fyrstu tveimur leikjunum mér miklum vonbrigðum. Kannski lét ég þessi ummæli falla af því ég var svo vonsvikinn en ég biðst samt afsökunar," sagði Keisarinn.

"Mér líkar vel við England og er mikill aðdáandi enska boltans. Kannski þess vegna brást ég svona illa við, kannski var ég í vondu skapi. Ég vil biðjast afsökunar og nú bið ég spenntur eftir leiknum á morgun. Hann verður mjög áhugaverður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×