Fótbolti

Messi vill fá Oasis í sigurpartýið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tevez og Messi eru miklir Oasis-menn.
Tevez og Messi eru miklir Oasis-menn.

Leikmenn Argentínu gera ýmislegt í frítíma sínum á HM til þess að stytta sér stundir. Þeir hlusta mikið á tónlist og Manchesterhljómsveitin Oasis er orðin uppáhalshljómsveit leikmanna liðsins. Helstu aðdáendur Gallagherbræðranna eru Carlos Tevez og Lionel Messi.

Tevez hefur mikið hlustað á Oasis síðan hann byrjaði að spila með Man. City en Gallagherbræður eru miklir stuðningsmenn City. Hann hefur síðan reynt að fá Messi til þess að hlusta á hljómsveitina.

Það hefur Messi loksins gert og hann er yfir sig hrifinn af tónlistinni sem hann hlustar nú á allan daginn.

"Carlitos er búinn að tala lengi um hvað þetta sé frábær hljómsveit. Ég lofaði alltaf að hlusta en gaf mér ekki tíma í það. Á leiðinni til Afríku fékk ég að hlusta á fyrstu tvær plötu sveitarinnar hjá Carlitos. Ég bjóst ekki við miklu en verð að segja að þetta er með því besta sem ég hef heyrt. Þetta er gjörsamlega stórkostleg hljómsveit," sagði Messi með stjörnur í augunum.

"Lögin þeirra eru ótrúleg. Uppáhaldslögin mín eru Supersonic og Live Forever. Ég hlusta núna á Oasis á hótelinu, á leiðinni í leiki og í búningsklefanum. Ég trúi ekki að það hafi tekið mig allan þennan tíma að uppgötva hljómsveitina. Það eru allir að hlusta á þetta hjá okkur núna," sagði Messi sem hefur einnig horft á klippur af hljómsveitinni á Youtube og langar á tónleika.

Það gæti reynst þrautin þyngri þar sem hljómsveitin er hætt. Messi vill samt reyna að koma hljómsveitinni saman á ný og fá þá til þess að spila í sigurpartýi liðsins fari svo að liðið vinni mótið.

"Þeir þurfa bara að segja hvað þeir vilja fá borgað. Við erum til í borga og fá þá til okkar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×