Fótbolti

Úrúgvæska dómaratríóið skammað í heimalandinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney ræðir við Espinosa.
Wayne Rooney ræðir við Espinosa. Nordic Photos / AFP

Úrúgvæsku dómararnir Jorge Larrionda og Mauricio Espinosa voru húðskammaðir í fjölmiðlum í heimalandinu fyrir frammistöðuna í leik Englands og Þýskalands í gær.

Frank Lampard skoraði löglegt mark þegar staðan var 2-1 fyrir Þýskalandi. Skot hans fór af slánni og inn fyrir marklínuna áður en boltinni skoppaði aftur út úr markinu.

Flestir á vellinum sáu að boltinn fór inn fyrir línuna en ekki aðstoðardómarinn Espinosa né heldur aðaldómarinn Larrionda.

Larrionda mun hafa sopið hveljur þegar hann sá endursýningar af þessu í hálfleiknum. „Guð minn góður," er haft eftir honum víða í fjölmiðlum í dag.

„Þetta eru 80 sentimetrar sem verða nú hluti af svartri sögu heimsmeistarakeppninnar," sagði greinarhöfundur í El Pais. „Þetta voru mjög alvarleg mistök."

Víða er rætt um hvort að innleiða eigi tækni sem tekur af allan vafa um hvort að boltinn fari yfir línuna í atviki sem þessu. Því er hann sammála.

„Þetta var ekki leikur á milli Cook-eyja og Nýja-Sjálands. Þetta var leikur á milli tveggja fyrrverandi heimsmeistara í útsláttarkeppni heimsmeistaramóts. Þetta mál mun ekki hverfa á nokkrum klukkustundum."

Markið umrædda sem fékk ekki að gilda má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×