Íslenski boltinn

Þorvaldur: Sýndum hvers við erum megnugir

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson
Þorvaldur Örlygsson Mynd/Pjetur
Þorvaldur Örlygsson var ánægður með að vera svo gott sem búinn að tryggja sér fjórða sæti deildarinnar eftir sigurinn á Grindavík í dag.

"Við sýndum hvers við erum megnugir með að klára leikinn. Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleik, vorum að flýta okkur en mér fannst við hafa völdin í seinni hálfleik," sagði Þorvaldur.

"Það er ekki óeðlilegt að leikir spilist svona í lok tímabils, hvort sem menn eru komnir í bikarúrslit eða ekki. Það sást á liðinu sem við spiluðum á móti. Þeir byrjuðu af krafti en voru svo farnir að bóka ferðina eitthvert annað, því miður. Þetta er oft í hausnum á mönnum."

"Við eigum Þrótt í síðustu umferðinni og við undirbúum okkur fyrir hann. Við höfum verið að spila á ungum strákum sem hafa verið að leggja sig fram og það er gaman að sjá þá líka. Það hjálpar manni og gefur manni kraft að sjá árangur af þessu starfi með ungu leikmennina. Þetta snýst um það hjá þeim að þeir stigi upp og geri hlutina. Það hjálpar vonandi framtíð félagsins."

"Ég held að þetta sé mikil vinna sem er að skila sér hjá þessum drengjum. Þeir þurfa að leggja sig fram þangað til að þeir fái tækifæri. Þetta eru vel gerðir drengir, innan sem utan vallar og maður vonast til að þeir nái enn betri árangri. Maður mun reyna allt til að hjálpa þeim en svo er það undir þeim komið að leggja sig fram," sagði Þorvaldur en fjölmargir ungir leikmenn hafa fengið tækifæri hjá Fram í sumar og margir hverjir leikið mjög vel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×