Erlent

Rændi tölvubanka fyrir sjúkrareikningum sonarins

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Skjámynd úr EVE Online.
Skjámynd úr EVE Online.
Ebank bankinn í íslenska tölvuleiknum EVE Online hefur vakið mikla athygli á heimsvísu síðastliðinn mánuð. Ástæðan er sú að spilarinn Ricdic, sem var hátt settur í bankanum, stakk af með innistæður annarra leikmanna og seldi þær á svörtum markaði fyrir alvöru peninga. Grein um málið birtist meðal annars í vefútgáfu New York Times og víðar.

Það var þó ekki fyrr en í dag sem fréttastofa Reuters birti loks viðtal við svikahrappinn. Hann reyndist vera 27 ára gamall Ástrali að nafni Richard. Hann notaði féð til að greiða fyrir sjúkrakostnað veiks sonar síns og afborgun á húsinu.

„Þetta var ákvörðun sem ég tók bara allt í einu," sagði maðurinn. „Ég er alls ekki stoltur af þessu, enda er ég ekkert að gorta mig. En ef ég þyrfti aftur að bregðast við svona aðstæðum, þá myndi ég líklegast gera þetta aftur eins."

Alls stal maðurinn um 200 milljörðum af kredits, en það er gjaldmiðill leiksins, og seldi fyrir andvirði um 640 þúsund króna. Leikurinn grundvallast á algjöru frelsi spilaranna og því braut maðurinn enga skilmála með svikunum. Hins vegar var aðgangi mannsins að leiknum eytt eftir að upp komst að hann hafði selt kredits í raunheiminum, en það er með öllu bannað.

Bankinn ku þó vera vel staddur fjárhagslega, enda með alls 2,3 billjónir kredits í bundnum innlánum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×