Íslenski boltinn

Ásmundur: Mikil vonbrigði

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson Mynd/Daníel
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis gat ekki leynt vonbrigðum sínum eftir að lið hans féll úr Pepsí deildinni eftir, 3-1, ósigur gegn Fram í kvöld.

„Þetta eru mikil vonbrigði og svekkelsi. Við vissum að við vorum í vondri stöðu fyrir leikinn en þetta var síðasta hálmstráið. Við sáum möguleika og vissum að hann væri fyrri hendi. Við trúðum á hann og menn ætluðu sér að gera eitthvað í leiknum,“ sagði Ásmundur.

„Við vorum slakir í fyrri hálfleik og virkuðum yfir spenntir. Þó menn hafi ætlað sér þá tókst það ekki. Við komum okkur í vonda stöðu og þó menn hafi sýnt smá líf í síðari hálfleik þá vantaði eins og oft áður herslumuninn á að komst almennilega inn í leikinn.“

„Þetta var yfirspenna. Menn komu tilbúnir inn í leikinn og ætluðu að gera sitt besta en  spenntu sig of mikið upp og því fór sem fór. Partur af því er reynsluleysi.“

„Þetta er búið að blasa við í svolítinn tíma. Það var annars staðar sem við töpuðum mótinu. Við eigum heimaleiki gegn liðum í kringum okkur sem fóru illa. Heimaleikur gegn ÍBV, heimaleikur gegn Þrótti. Þar eru leikir sem við horfum í og erum svekktir með niðurstöðuna úr.“

„Einbeitingin var að klára þetta sumar og klára þetta mót. Ég er með samning út næsta tímabil þó það séu hefðbundin uppsagnarákvæði að beggja hálfu. Við förum yfir hlutina að móti loknu og skoðum hlutina í rólegheitum, hvað borgar sig að gera.“

„Ég sé ekkert á móti því að halda áfram. Það er spennandi framtíð í Grafarvogi og mikill efniviður að koma upp. Það er margt vitlausara en það að halda áfram og reyna að koma liðinu upp,“ sagði Ásmundur að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×