Innlent

Ráðherra vill banna starfsemi Vítisengla

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra segir stjórnvöld verða að bregðast við vaxandi hörku í afbrotum hér á landi. Sérstaklega verði að bregðast við hættunni sem fylgir því þegar erlend glæpasamtök reyna að hasla sér völl í gegnum samtök eða félög hérlendis.

Ragna segir að dómsmálaráðuneytið sé að kanna hvort setja eigi sérstök lög sem heimili stjórnvöldum að banna ákveðin félög. Lögunum yrði síðan fylgt eftir með því að höfða mál þeim til staðfestingar, eins og stjórnarskrárákvæði þar að lútandi heimilar.

Fréttablaðið greindi frá því fyrir skömmu að handrukkarar væru nú farnir að rukka almenna borgara fyrir skuldir sem stofnað hefur verið til með lögmætum hætti. Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur unnið mat á skipulagðri glæpastarfsemi til lengri tíma.

„Það, að menn sammælist um að fremja glæpi, hvort sem það er í samtökum eða utan þeirra, er alvarlegt mál og á ekki að líðast á Íslandi," segir Ragna.

Spurð hvernig stjórnvöld ætli að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem er orðin staðreynd hér á landi, segir ráðherra að lögreglu­yfirvöld hafi unnið ötullega að því að upplýsa brot.

Forgangsverkefni sé að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Tillögur til breytinga á almennum hegningarlögum hafi verið lagðar fram, sem ætlað sé að vinna gegn slíkri brotastarfsemi. Vonir standi til að unnt verði að samþykkja þær sem lög frá Alþingi nú á haustþingi.

„Þá má nefna ákvarðanir um sérstakt landamæraeftirlit vegna fregna um komu Vítisengla hingað til lands, nú síðast í vor," segir ráðherra.

„Þá er í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali áform um að athuga hvort lögregla eigi að fá forvirkar rannsóknarheimildir til að stemma stigu við þeim brotum sérstaklega.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×