Fótbolti

Holland og England enn með fullt hús stiga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Kuyt og Arjen Robben fagna marki þess síðarnefnda í kvöld.
Dirk Kuyt og Arjen Robben fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. Nordic Photos / AFP

Átta leikir fóru fram í dag í undankeppni HM 2010 og bar þar helst til tíðinda að bæði Holland og Noregur eru enn með fullt hús stiga í sínum riðlum.

Holland vann í kvöld 2-0 sigur á Noregi í íslenska riðli undankeppninnar. Holland tryggði sér sæti á HM í Suður-Afríku með sigri á Íslandi um helgina en gáfu ekkert eftir í kvöld gegn Norðmönnum.

Andre Oojer kom Hollendingum yfir á 32. mínútu og Arjen Robben bætti öðru marki við á 50. mínútu. Norðmenn eru því enn í neðsta sæti riðilsins með þrjú stig eftir fimm leiki.

Holland hefur þó unnið alla sjö leiki sína í riðlinum og er með fjórtán stiga forskot á Skotland og Makedóníu sem koma næst með sjö stig. Makedónía vann Ísland, 2-0, fyrr í kvöld í sama riðli.

England er nú komið með annan fótinn á HM eftir 6-0 sigur á Andorra í kvöld. Wayne Rooney kom Englandi yfir á fjórðu mínútu og Frank Lampard bætti við öðru marki á 29. mínútu. Tíu mínútum síðar skoraði Rooney aftur og þannig var staðan í hálfleik.

Varamaðurinn Jermain Defoe skoraði næstu tvö mörk leiksins og Peter Crouch innsiglaði svo sigurinn með marki á 80. mínútu.

Í sama riðli vann Úkraína 2-1 sigur á Kasakstan og er því með ellefu stig eftir sex leiki, rétt eins og Króatía. Bæði lið geta því enn náð Englendingum að stigum. Andorra og Kasakstan eru þó bæði úr leik, rétt eins og íslenska liðið.

Rússar unnu 3-0 sigur á Finnum í 4. riðli keppninnar í kvöld. Kerzhakov skoraði tvívegis fyrir Rússa og Zyryanov einu sinni. Rússar eru nú aðeins einu stigi á eftir Þjóðverjum sem eru á toppi riðilsins með sextán stig eftir sex leiki. Þessi lið mætast í Moskvu í haust þar sem toppsætið verður væntanlega undir.

Þá unnu Serbar 2-0 skyldusigur á Færeyingum. Liðið er í efsta sæti 7. riðils með átján stig eftir sjö leiki. Frakkar eru átta stigum á eftir en eiga tvo leiki til góða.

Hið sama má segja um Svíþjóð sem vann 4-0 sigur á Möltu. Svíum hefur hins vegar ekki gengið vel í undankeppninni og eru einungis með níu stig eftir sex leiki - rétt eins og Portúgal. Danir eru í efsta sæti með sextán stig og Ungverjar eru með þrettán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×