Enski boltinn

Hárblásari Ferguson gerir svarta menn að hvítum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rio segir Ferguson afar harðan í horn að taka.
Rio segir Ferguson afar harðan í horn að taka. Nordic Photos/Getty Images

Enski landsliðsmaðurinn Rio Ferdinand er í skemmtilegu viðtali við tímaritið GQ. Þar talar hann meðal annars um að hann vilji sjá Jose Mourinho taka við af Sir Alex Ferguson sem hann segir reyndar eiga nóg eftir.

„Eru menn enn að fá hárblásarann hjá Ferguson? Já, heldur betur. Ég hef séð hvíta menn verða bleika þegar Ferguson er að öskra á þá og svarta menn verða hvíta. Eldri leikmenn segja mér reyndar að þetta hafi verið verra hérna í gamla daga," sagði Rio um hina goðsagnakenndu hárblásarameðferð Fergusons sem hann beitir óspart í klefanum.

Rio hefur sjálfur lent í hárblásaranum hjá Skotanum harða.

„Ég fékk hárblásarann á hæsta styrk eftir leik gegn Benfica í Meistaradeildinni. Ég man að hafa hugsað um hversu mikið ég vildi að hann færi að öskra á einhvern annan.

Ég var að springa af reiði að innan því mér fannst hann vera ósanngjarn og var ekki sammála honum. Ég horfði svo aftur á leikinn og komst að því að hann hafði rétt fyrir sér. Hann á alltaf síðasta orðið. Það er langbest að svara honum ekki því annars verður hann bara háværari," sagði Rio en hann segir Ferguson verða sérstaklega reiðan ef leikmenn haga sér ekki skikkanlega út á lífinu.

„Ef við höfum ekki hagað okkur út á lífinu fara flugeldarnir í gang. Þá verður kallinn alveg brjálaður og hausarnir enda bara á gólfinu."

Rio segir fáa menn geta tekið við af Ferguson en einn af þeim sem geti það sé Jose Mourinho.

„Fólk spyr mig oft hvernig hann sé. Það er erfitt að lýsa því en hann er sigurvegari alla leið. Það þarf mann með sterkan karakter og stórt egó til að fylla hans skarð og því kemur nafn Mourinho fljótt upp í hugann."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×