Enski boltinn

Wenger ætlar ekki að breyta um stefnu í leikmannakaupum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger segist ekki ætla að breyta um stefnu varðandi leikmannakaup Arsenal þar sem hann er knattspyrnustjóri.

Arsenal hefur ekki unnið titil síðan 2005 og síðan að félagið flutti á Emirates-leikvanginn ári síðar hefur Wenger einbeitt sér frekar að því að hlúa að ungum leikmönnum en að kaupa dýra og þekkta leikmenn.

„Ég hef ekkert á móti því að eyða pening," sagði Wenger. „Við viljum láta reksturinn standa undir sér. Ef þú vilt setja félagið á hausinn er ég ekki rétti maðurinn til þess."

Wenger eyddi þó fimmtán milljónum punda í Rússann Andrey Arshavin og mörgum stuðningsmönnum Arsenal finnst það ekki nóg og vilja fleiri stórstjörnur til félagsins.

Wenger gaf þó í skyn að hann gæti hugsanlega styrkt vörn Arsenal-liðsins í sumar með leikmannakaupum. Hann segir að varnarleikurinn sé helsti munurinn á liðum Arsenal og Manchester United.

„Við erum jafngóðir á vallarhelmingi andstæðingsins og Manchester United. Við höfum hins vegar fengið fleiri mörk á okkur og þar liggur munurinn - við höfum fengið 36 mörk á okkur en þeir 24."

Hann segir að hann myndi einnig vilja hækka meðalaldurinn í liðinu.

„Við þurfum ekki fleiri reynslulitla leikmenn. Ef við fáum nýja leikmenn verða það leikmenn sem búa yfir reynslu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×