Fótbolti

Þjálfari Frakka gerði grín að frönsku pressunni á blaðamannafundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Bini, þjálfari franska landsliðsins.
Bruno Bini, þjálfari franska landsliðsins.

Bruno Bini, þjálfari franska landsliðsins, lék við hvern sinn fingur á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Íslandi á morgun en blaðamannafundurinn fór fram á leikvanginum í dag. Bini var ekki sáttur við áhuga franska fjölmiðla á liðinu sínu og gerði mikið grín af þeim á fundinum.

„Vitið þið hvað það eru margir franskir blaðamenn á mótinu?," spurði Bini þá blaðamenn sem mættu á fundinn. Svarið lét líka ekki bíða eftir sér: „Enginn," sagði Bini .

Hann talaði ennfremur um að fólkið heima í Frakklandi vilji sjá árangur áður en það fer að styðja við liðið en það sé mun erfiðara fyrir liðið að ná árangri þegar þær fá ekki stuðning.

Bini sagði franska liðið ekki hafa fengið neinn áhuga fyrr en nokkrir leikmenn liðsins létu mynda sig naktar í febrúar en það dugði þó aðeins í skamman tíma.

„Ég bauðst líka til að koma nakinn fram en það dugði ekki heldur," sagði Bini í gríni og fékk mikinn hlátur að launum frá blaðamönnum á fundinum en Bini er 55 ára gamall auk þess að vera feitlaginn maður og því kannski ekki hin týpíska nektarfyrirsæta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×