Körfubolti

Jónína Þór­dís gældi við þrennuna og Ár­mann fór á­fram í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jónína Þórdís Karlsdóttir og félagar í Ármanni eru komnar áfram í bikarnum eftir góðan sigur í Breiðholti í kvöld.
Jónína Þórdís Karlsdóttir og félagar í Ármanni eru komnar áfram í bikarnum eftir góðan sigur í Breiðholti í kvöld. Ármann Körfubolti

Ármannskonur komust í kvöld áfram í átta liða úrslit VÍS-bikarsins í körfubolta eftir sigur á ÍR-konum í Skógarselinu.

Ármann er þriðja liðið til að komast áfram en fyrr í dag unnu Keflavík og Hamar/Þór einnig sína leiki í sextán liða úrslitunum.

Ármann mætti 1. deildarliði ÍR og vann nokkuð öruggan sautján stiga sigur, 84-67. Þetta var langþráður sigur enda hefur liðið tapað sjö leikjum í röð í Bónus-deildinni og ekki unnið deildarleik síðan í október.

Ármenningar unnu alla leikhlutana en þær voru þó bara einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 18-17, og voru þremur stigum yfir í hálfleik, 35-32.

Nabaweeyah Mcgill skoraði 22 stig fyrir Ármann og Dzana Crnac var með 19 stig og 10 fráköst. Khiana Johnson skoraði 14 stig og Sylvía Rún Hálfdanardóttir var með 11 stig og 11 fráköst.

Fyrirliðinn Jónína Þórdís Karlsdóttir gældi við tvöfalda þrennu en hún endaði leikinn með 9 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar.

Cealy Grace Kesten var með 25 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir ÍR en Heiða Sól Clausen Jónsdóttir skoraði 13 stig og Aþena Þórdís Ásgeirsdóttir var með 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×