Erlent

Vill takmarka vöxt bankanna

Christine Lagarde bendir á að fjárfestingabönkum hafi fækkað úr sex í þrjá í Bandaríkjunum eftir hrunið.
Christine Lagarde bendir á að fjárfestingabönkum hafi fækkað úr sex í þrjá í Bandaríkjunum eftir hrunið.
Aðgerðir ríkisstjórna víða um heim til bjargar fjármálageiranum kunna að leiða af sér fákeppni og markaðsmisnotkun á bankamarkaði. Svo mælir Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands.

Lagarde hefur viðrað þessa skoðun sína við fjármálaráðherra tuttugu auðugustu iðnríkja heims fyrr á árinu og mun árétta hana á fundi með fjármálaráðherrum aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) í vikunni.

Breska ríkisútvarpið (BBC) segir hana meðal annars hafa beðið ráðherrana um að kanna hvort bankar sem njóti ríkisstuðnings hafi aukið markaðshlutdeild sína í skugga þess stuðnings. BBC nefnir sem dæmi að bandaríski risabankinn Citigroup og sá breski Royal Bank of Scotland hafi notið stuðnings stjórnvalda þegar alvarlega kreppti að þeim í fjármálahruninu fyrir rúmu ári.

Máli sínu til stuðnings hefur Lagarde bent á að fyrir hrun hafi sex fjárfestingarbankar verið starfræktir í Bandaríkjunum. Þeir eru nú helmingi færri.

Samkeppnisyfirvöld ESB hafa gripið til ýmissa ráða til að hamla vexti banka innan aðildarríkjanna sem notið hafa opinbers stuðnings frá í fyrra. Þar á meðal eru kröfur um aukið eiginfjárhlutfall þeirra, uppstokkun á rekstri þeirra og sala eigna.- jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×