Íslenski boltinn

Ólafur: Það er enginn að bíða eftir bikarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Stefán

Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Blika, þurfti að sætta sig við fyrsta tap sinna manna síðan 26. júlí þegar KR vann 2-0 sigur á Blikum í Kópavogi í dag en Breiðabliksliðið var búið að ná í þrettán stig af síðustu fimmtán mögulegum.

„Við vorum að spila mjög ásættanlega í fyrri hálfeik, sköpuðum mikið af færum og vörðumst KR-ingunum vel. Við komum grimmir inn í leikinn og það var kraftur í liðinu en munurinn í fyrri hálfleik var að þeir nýttu færin en við nýttum ekki færin.

Í seinni hálfleiknum voru KR-ingarnir ívið sterkari. Við fengum dauðafæri í byrjun seinni hálfleik sem við nýttum ekki en KR-ingar tóku svo völdin og eftir annað markið skynjaði maður að þetta væri erfitt hjá okkur. Ég held að úrslitin hafi alveg verið sanngjörn og liðið sem var betra í dag fór með sigurinn," sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Blika.

Ólafur segir að enginn í Breiðabliksleiknum sé að bíða eftir bikarúrslitaleiknum á móti Fram eftir rúmar tvær vikur.

„Við erum auðvitað ekki að bíða eftir bikarúrslitaleiknum því fyrir þennan leik voru þrír leikir eftir í deildinni. Við erum ekki búnir að ná markmiðunum okkar í deildinni og meðan er svo er þá reynum við að keppa að þeim. Það er enginn að bíða eftir bikarleiknum," sagði Ólafur og bætti við:

„Ef við ætlum að búa til gott lið sem sigrar eitthvað einhvern tímann þá þurfa menn alltaf að keppa þegar það eru leikur. Ég blæs á það að við ætlum að sigla rólega í gegnum þetta," sagði Ólafur og næsti leikur er á móti föllnum Fjölnismönnum um næsti helgi.

„Við eigum Fjölni á sunnudaginn. Það eru þrjú stig í boði og við erum að keppa að markmiðum okkar. Við förum á fullu í þann leik og það verður ekkert sparað," sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×