Innlent

Neitaði allri sök en hlaut níu ára dóm

Stígur Helgason skrifar
Aldrei hefur viðlíka magn af fíkniefnum verið tekið í einu.
Aldrei hefur viðlíka magn af fíkniefnum verið tekið í einu. Vísir/GVA
Athafnamaðurinn Þorsteinn Kragh var í gær dæmdur í níu ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innflutning á tæplega 200 kílóum af hassi og 1.300 grömmum af kókaíni. Aldraður Hollendingur, Jacob van Hinte, sem flutti efnin til landsins falin í húsbíl, hlaut sjö og hálfs árs fangelsisdóm.

Hollendingurinn játaði sök en Þorsteinn neitaði aðild að málinu. Dómurinn telur vitnisburð Þorsteins með ólíkindum og að engu hafandi.

Efnið barst til landsins 10. júní í fyrra. Lögregla handtók Hollendinginn vegna þess að hann var eftirlýstur erlendis en lögregla vissi ekki af efnunum, sem voru vel falin í húsbílnum, fyrr en hann vísaði á þau. Sérstakt áhald þurfti til að opna leynihólf þar sem efnin voru geymd.

Hollendingurinn bar í fyrstu að maður sem hann kallaði Kimma hafi fengið hann til innflutningsins, og benti á Þorstein við sakbendingu og sagði að þar færi Kimmi. Hann sagðist hafa flutt inn 50 kíló af hassi í félagi við Þorstein árið 2007, og hefði átt að fara eins að í þetta skiptið og afhenda Þorsteini efnið við gufubaðið á Laugarvatni, sem Þorsteinn rak. Hann hafi átt að fá 40 þúsund evrur fyrir viðvikið.

Síðar í rannsókninni tók framburður hans hins vegar u-beygju og skyndilega kannaðist hann ekkert við aðild Þorsteins. Sagði hann þá Breta að nafni Bill og Jim hafa skipulagt innflutninginn.

Þorsteinn Kragh.Vísir/GVA
Þorsteinn sagðist kannast við Hollendinginn. Hann hafi ferjað á áttunda tug ellilífeyrisþega frá Seyðisfirði og í gufubaðið sitt fyrir Hollendinginn á sínum tíma og hafi auk þess ætlað að útbúa stjörnukort fyrir öldunginn, sem hafi haft mikinn áhuga á stjörnufræði. Ekkert af þessu kannaðist Hollendingurinn við.

Dómurinn taldi sannað, út frá upplýsingum um símnotkun og bankagögnum, að Þorsteinn hefði skipulagt smyglið og að Hollendingurinn hefði breytt framburði sínum eftir að hann hitti Þorstein á Litla-Hrauni.

Segir í dómnum að breyttur framburður Jabobs van Hinte sé „svo ótrúverðugur og reyfarakenndur að hann verði ekki lagður til grundvallar niðurstöðunni“. Þá sé framburður Þorsteins með ólíkindum og „í algjöru ósamræmi við flest annað sem fram er komið í málinu“. Þorsteinn eigi sér engar málsbætur.

Það er metið Hollendingnum til refsilækkunar að hann játaði sök og benti á Þorstein, þótt hann hafi síðar dregið þann framburð sinn til baka. Líklegt er að dómnum verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×