Enski boltinn

Lampard veit ekki hvort John Terry verði áfram hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard og John Terry.
Frank Lampard og John Terry. Mynd/AFP

Frank Lampard hefur ýtt undir óvissuna í kringum framtíð fyrirliða síns hjá Chelsea, John Terry, með því að segjast ekki vita hvort Terry verði áfram hjá Lundúnafélaginu. Terry hefur verið orðaður við Manchester City sem ætlar að bjóða 35 milljónir punda í enska miðvörðinn.

„Ég veit ekki hvað hann mun gera," sagði Lampard í viðtali við Times. „Ég hef verið í sömu stöðu og John en allir í félaginu vilja að hann verði áfram. Ég átti möguleika á að fara frá Chelsea síðasta sumar og fara til stjórans sem ég elska. Ég ákvað síðan að það væri ekki það rétta í stöðunni," sagði Lampard.

„Ég hugsaði stöðugt um framtíðina á þessum tíma og þetta var ekki auðveld ákvörðun. Ég tel að fólk geti ekki gagnrýnt John. Það getur enginn tekið frá honum það sem hann hefur gert fyrir Chelsea. Hann er goðsögn hjá félaginu og ég vona að hann verði það áfram hvað sem gerist," sagði Lampard.

„Fólk á að virða hans rétt til að velja. Hann er að hugsa um framtíð sína sem fótboltamanns og þetta er aldrei bara spurning um peninga," sagði Lampard.

„Þetta verður síðan alltaf ákvörðun John Terry sjálfs. Það eina sem ég get sagt er að ég er stoltur yfir því að fá að spila með honum og öll félög vilja halda leikmanni eins og Terry," sagði Lampard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×