Erlent

Vinnustaðaárásir vandamál í Bandaríkjunum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frá vettvangi í Kansas þar sem maður réðst vopnaður inn á fyrrverandi vinnustað sinn og hóf skothríð.
Frá vettvangi í Kansas þar sem maður réðst vopnaður inn á fyrrverandi vinnustað sinn og hóf skothríð.

Farið er að grípa til sérstakra aðgerða á sumum bandarískum vinnustöðum af ótta við hefndaraðgerðir fólks sem sagt hefur verið upp störfum.

Reiði og heift ólga í mörgum þeirra sem fengið hafa uppsagnarbréfið í hendur og misst í kjölfarið starfið. Að þessu er farið að kveða svo rammt á vinnustöðum í Bandaríkjunum að sum fyrirtæki hafa gripið til sérstakra aðgerða til verndar starfsfólki sínu.

Þannig lét fjármálafyrirtæki nokkurt nýlega fylgja fyrrum starfsmanni eftir um tíma til að fullvissa sig um að hann réðist ekki með ofbeldi gegn starfsfólki fyrirtækisins. Ótti og óbeit í kjölfar uppsagna er enda mikið alvörumál, einkum á þeim erfiðu tímum sem nú eru í bandarísku efnahagslífi.

Ekki er langt síðan bifvélavirki í San Diego myrti tvo vinnufélaga sína eftir að honum var sagt upp störfum og í New York-ríki skaut atvinnulaus maður 12 manns á sínum fyrrverandi vinnustað. Sérfræðingar í öryggismálum sitja nú sveittir við að skrifa bækur sem eiga að hjálpa yfirmönnum og öðrum á vinnustað að greina hugsanlega yfirvofandi árás og meta áhættuna með tilliti til persónuleika þess sem á í hlut. Hafa tvær slíkar bækur nýlega birst í hillum bókaverslana og fleiri eru án efa á leiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×