Innlent

Kjötiðnaðarmenn harma sleggjudóm

Nautahakk hefur verið mikið í umræðunni undanfarið.
Nautahakk hefur verið mikið í umræðunni undanfarið.

Meistarafélag kjötiðnaðarmanna harmar það sem þeir kalla sleggjudóm frá bændum á Hálsi í Kjós, sem á dögunum fullyrtu að nautahakk væri stundum blandað með ýmsu öðru án þess að þess sé getið á umbúðum. „Þar er fullyrt án rökstuðnings að vörusvik fari fram á okkar neytendamarkaði," segja kjötiðnaðarmenn í ályktuninni.

„Á Íslandi er í fullgildi matvælalöggjöf og reglugerðir um matvælaframleiðslu sem eru í hávegum hafðar í öllum viðurkendum kjötvinnslum, en þar starfa kjötiðnaðarmeistarar og kjötiðnaðarmenn. Þar er í öllu farið eftir þeim reglum sem á markaðinum gilda hverju sinni," segir einnig.

Þá benda þeir á Matvælaeftirlitið, sem fylgist með að reglum sé fylgt og Neytendasamtökin sem taka á vörusvikum sé til þeirra leitað. „MFK vonar að hjá bændum á Hálsi í Kjós hafi orðið einhver misskilningur, sem vonandi verður leiðréttur sem fyrst, að öðrum kosti viljum við sjá rökstuðning við þessum fullyrðingum svo hægt sé að taka á málinu."

Að endingu segir að svikin vara megi ekki vera í umferð, það sé kjötiðnaðinum til lítilslækkunar. „Á slíkum málum verður að taka reynist það rétt. Til þess höfum við matvælaeftirlit."






Tengdar fréttir

Engar vísbendingar fundist um falsað nautahakk

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur- Matvælaeftirlit segist ekki hafa fundið neinar vísbendingar sem renna stoðum undir fullyrðingu nautabóndans Þórarins Jónssonar á Hálsi um að nautahakk sé drýgt með öðru kjöti en nautakjöti og svo selt ómerkt í verslunum.

Stjórn Meistarafélags kjötiðnaðarmanna kölluð saman

Kristján Kristjánsson formaður Meistarafélags kjötiðnaðarmanna hefur boðað til fundar í stjórn félagsins í kjölfar frétta um að nautahakk hafi í einhverjum tilvikum verið blandað hrossakjöti og öðru. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að Neytendasamtökin kanna mál af þessu tagi. Þá hefur nautakjötsbóndi í Kjós lýst slíkum vinnubrögðum.

Landsamband Kúabænda harma ásakanir um falsað nautahakk

Landsamband Kúabænda harma ummæli Þórarins Jónssonar á Hálsi, en hann sagði í viðtali við sjónvarp mbl.is í morgun að nautahakk sé drýgt með hrossakjöti og öðru ódýrara hráefni án þess að greina neytendum frá því.

Neytendasamtökin rannsaka falsað nautakjöt

Neytendasamtökin krefjast þess að Matvælastofnun rannsaki ásakanir um að nautahakk sé drýgt með hrossakjöti og öðru ódýrara hráefni án þess að greina neytendum frá því. Formaður samtakanna segir að ef ásakanirnar séu réttar sé verið að stela af neytendum á grundvelli vörusvika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×