Íslenski boltinn

Atli Eðvaldsson: Gátum ekki komið til baka fyrir nokkrum vikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Eðvaldsson, þjálfari Vals.
Atli Eðvaldsson, þjálfari Vals. Mynd/Arnþór

„Við segjum að þetta hafi verið pottþétt víti af því að Marel var haldið en Stjörnumenn segja að þetta hafi verið gefið. Það eru búin að vera hundrað svona víti dæmd og í 500 skipti hefur þeim verið sleppt," sagði Atli Eðvaldsson, þjálfari Vals eftir 3-3 jafntefli við Stjörnuna í dag en Valsliðið skoraði jöfnunarmarkið úr umdeildri vítaspyrnur á 88. mínútu.

„Þetta var mjög kaflaskipt. Fyrsta markið þeirra var alveg herfilegt og það er ekki hægt að segja annað en að það hafi verið fyrstu gráðu gjöf. Það góða við fyrri hálfleikinn var að við komum mjög vel til baka, sköpuðum okkur fullt af færum og skoruðum tvö mörk. Helgi skoraði glæsilegt mark og Arnar skoraði meiriháttar mark eftir samvinnu þeirra tveggja. Við hefðum átt að vera meira yfir í hálfleik og þá hefði heimurinn litið öðruvísi út," segir Atli.

„Við ætluðum að byrja seinni hálfleikinn betur en fyrri hálfleikinn en við byrjuðum nákvæmlega eins og það var óöryggi í liðinu. Það var ekki fyrr en við vorum komnir undir aftur að liðið tók aftur við sér. Það kom líka ferskleiki með nýjum mönnum og við náðum að jafna," segir Atli.

Valsliðið kom nú til baka í öðrum leiknum í röð og tryggði sér stig. Atli var ánægður með það.

„Það gátum við ekki fyrir nokkrum vikum síðan því þá brotnuðum við. Menn komu til baka en vonandi þurfum við ekki að koma til baka í síðustu tveimur leikjunum. Við náum vonandi að spila betur í þeim leikjum," sagði Atli að lokum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×