Enski boltinn

Rooney vill þagga niður í stuðningsmönnum Arsenal

Nordic Photos/Getty Images

Wayne Rooney, leikmaður Manchester United, vill ólmur hefna sín á stuðningsmönnum Arsenal þegar liðin mætast á Old Trafford í stærsta leik leiktíðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

United getur tryggt sér enska meistaratitilinn með sigri og það myndi að mati Rooney eyða út slæmum minningum frá árinu 2002 þegar Arsenal tryggði sér meistaratitilinn á Old Trafford.

Stuðningsmenn Arsenal hafa verið duglegir að minna United-menn á þessa staðreynd í söngvum sínum undanfarin ár.

"Við verðum meistarar ef við náum stigi og vonandi kemur það á laugardaginn. Það væri frábært að ná að vinna titilinn fyrir framan okkar áhorfendur og sömuleiðis gegn góðu liði eins og Arsenal. Stuðningsmenn þeirra syngja alltaf um titilinn sem þeir unnu á Old Trafford forðum, svo það væri gaman að þagga niður í þeim," sagði Rooney.

United hefur unnið marga titlana undanfarin ár, en svo ótrúlega vill til að liðið hefur afar sjaldan fagnað titlinum á eigin heimavelli. Það gerðist síðast árið 1999.

"Ég vil klára þetta fyrir framan stuðningsmenn okkar. Stjórinn sagði að það hefði aðeins tekist einu sinni á síðustu 17 árum. Það yrði líka ótrúlegt að vinna þriðja árið í röð," sagði Rooney.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×