Erlent

Ísraelar æfir Sameinuðu þjóðunum

Bygging Sameinuðu þjóðanna í New York.
Bygging Sameinuðu þjóðanna í New York. Mynd/GVA
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna harmar hve mörg ríki heims hafi ákveðið að sniðganga ráðstefnu um kynþáttamisrétti sem hófst í Genf í Sviss í morgun. Forseti Írans verður á ráðstefnunni og óttast margir að hann muni nota ráðstefnuna sem vettvang fyrir gyðingahatur.

Ísraelar eru æfir Sameinuðu þjóðunum fyrir að hafa boðið Írönum til fundarins og hafa kallað sendiherra sinn heim frá Sviss vegna þess að Hans-Rudolf Merz, forseti Sviss, bauð Mahmoud Ahmadeinajad, Íransforseta, velkominn til Sviss í gær og fundaði með honum.

Fundurinn í dag sem stendur í fimm daga er í framhaldi af umræðufundi sem Sameinuðu þjóðirnar héldu í Durban í Suður-Afríku 2001. Þar kom til heiftarlegar átaka þegar átti að flokka síonisma sem kynþáttahyggjur. Bandaríkjamenn og Ísraelar gengu af ráðstefnunni.

Nú voru lögð til drög að lokayfirlýsingu sem innihéldu sama orðalag. Því var mótmælt og það fellt út. Ekkert er heldur minnst á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Ríki Mið-Austurlanda fengu þó í gegn að haldið var kafla þar sem hvatning til trúarofstækis var gagnrýnd. Það töldu mörg vestræn ríki hins vegar brjóta gegn tjáningarfelsi.

Deilurnar um lokayfirlýsinguna hafa orðið til að Ástralar, Bandaríkjamenn, Ísraelar og Þjóðverjar senda ekki fulltrúa á ráðstefnuna en það gera Bretar, Íslendingar og Frakkar hins vegar.

Við upphaf fundarins í morgun lýsti Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, yfir vonbriðgum með hversu mörg ríki hefðu ákveðið að sniðganga ráðstefnuna.

Það er þó ekki bara orðalag lokayfirlýsingarinnar sem veldur deilum heldur einnig sú staðreynd að Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti, sækir fundinn og flytur ávarp í dag. Óttast er að hann muni nota tækifærið og greina aftur frá þeirri sannfæringu sinni að helför gyðinga hafi aldrei átt sér stað og ítreka óvild sína í garð Ísraelsríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×