Enski boltinn

Vil heldur tapa á HM en vera með útlendan markvörð

Nordic Photos/Getty Images

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, er með mjög ákveðnar skoðanir á markvarðamálum enska landsliðsins.

Eins og við greindum frá fyrr í dag hefur Arsene Wenger stjóri Arsenal nú bæst í hóp þeirra mörgu sem viðrað hafa þá hugmynd að gera Spánverjann Manuel Almunia hjá Arsenal að enskum ríkisborgara svo hann geti varið mark enska landsliðsins.

Harry Redknapp er lítt hrifinn af þessum hugmyndum ef marka má ummæli hans í samtali við Sun í dag.

"Ég gæti ekki verið meira ósammála. Hann (Almunia) er ekki Englendingur. Ef ég mætti velja milli þess að vinna HM með spænskan markvörð eða vinna ekki - myndi ég heldur kjósa að vinna ekki," sagði Redknapp.

"Ef við getum ekki búið til okkar eigin markmenn, eigum við ekki skilið að vinna eitt eða neitt og ég hef engan áhuga á ensku landsliði skipuðu útlendingum," sagði Tottenham stjórinn.

"Þú ert Englendingur ef þú eða foreldrar þínir fæddust í landinu. Í því samhengi er mér alveg sama hvort fjölskylda þín er frá Indlandi, Ástralíu, Pakistan eða Jamaíka - þú ert Englendingur í mínum huga. En einhver eins og Almunia sem kemur hingað frá Spáni og spilar í nokkur ár - slíkur maður getur ekki allt í einu orðið Englendingur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×