Enski boltinn

Geovanni ekki stærri en Hull

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geovanni var ekki ánægður með að vera tekinn af velli um helgina.
Geovanni var ekki ánægður með að vera tekinn af velli um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Phil Brown, knattspyrnustjóri Hull City, segir að Brasilíumaðurinn Geovanni geti ekki leyft sér að láta eins og að hann skipti meira máli en félagið sjálft.

Geovanni hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Hull upp á síðkastið en var í byrjunarliðinu er Hull mætti Blackburn á heimavelli um helgina og tapaði, 2-1.

Brown ákvað að skipta Geovanni af velli og brást sá síðarnefndi illa við því.

„Þetta mun hann aldrei gera aftur," sagði Brown. „Af hverju ekki? Því ég er stjórinn. Geovanni er ekki stærri en sjálft félagið - það er bara svo einfalt."

„Mér fannst hann ekki hafa jákvæð áhrif á okkar leik. Þegar hann komst í færi náði hann ekki einu sinni að skjóta að markinu. Fyrsta snertingin hans var verri en hjá mér."

„Nick Barmby átti góðan leik í bikarnum á fimmtudaginn og mér fannst þetta gott tækifæri fyrir að nota hann í þessari stöðu. Hann reyndist hafa jákvæð áhrif á leikinn."

Stuðningsmenn Hull voru heldur ekki ánægðir með skiptingu Geovanni og bauluðu á Brown. „Það er mín skylda að taka erfiðar ákvarðanir. Ef þeir eru ekki ánægðir með þær geta þeir heldur ekkert gert í því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×