Fótbolti

Hólmfríður: Þetta verður mikið ævintýri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hólmfríður er á leið til Bandaríkjanna.
Hólmfríður er á leið til Bandaríkjanna.

Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir hefur ákveðið að taka tilboði bandaríska liðsins Philadelphia Independence og spila með liðinu á næsta ári í nýrri atvinnumannadeild í Bandaríkjunum.

Hólmfríður skrifar undir svokallaðan einn plús einn samning sem þýðir að báðir aðilar geta sagt upp samningnum séu þeir óánægðir eftir fyrra árið.

„Þetta var alls ekki erfið ákvörðun. Það var aldrei spurning um að taka þessu eftir að þetta kom upp. Svona gerist bara einu sinni," sagði Hólmfríður við Vísi í dag en hún tók þessu tilboði fyrir nokkru síðan.

„Ég var búinn að ákveða þetta fyrir nokkrum vikum. Vildi samt ekki greina frá þessu strax enda allt á fullu hjá liðinu mínu í Svíþjóð. Núna er það öruggt þannig að í lagi að segja frá þessu núna. Það var samt svolítið erfitt að segja ekki frá þessu," sagði Hólmfríður og hló við enda afar spennt.

„Þetta verður mikið ævintýri. Ég bara varð að stökkva á þetta tækifæri. Þetta er líka mikil áskorun fyrir mig. Það eru góðir leikmenn í þessu liði og deildin sterk. Ég vil spila með og á móti þeim bestu og fæ það þarna," sagði Hólmfríður.

Hún vildi ekkert ræða launamálin en sagðist vera sátt við sinn samning. Hún verður á fullum atvinnumannasamningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×