Enski boltinn

Gerrard ber við sjálfsvörn í kærumálinu

Ómar Þorgeirsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Nordic photos/AFP

Fyrirliðinn Steven Gerrard hjá Liverpool gat ekki ferðast með félagi sínu í æfingarferðina til Asíu vegna þess að hann þarf að koma fyrir rétti á Englandi vegna kærumáls fyrir slagsmál á skemmtistað í lok síðasta árs.

Atvikið átti sér stað á Lounge Inn skemmtistaðnum í Southport aðfaranótt 29. desember þar sem Gerrard var að fagna ásamt félögum sínum eftir 5-1 sigur gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.

Gerrard lenti þá í útistöðum við Marcus nokkurn McGee sem hafði tekið að sér að vera plötusnúður á staðnum og neitaði enska landsliðsmanninum um að taka við stjórninni yfir lagavali staðarins.

Samkvæmt BBC fréttastofunni viðurkennir Gerrard í samtölum sínum við lögreglu að hafa reynt að lemja McGee þrisvar sinnum en aðeins eitt högg hafi hitt og að hann hefði lamið plötusnúðinn í sjálfsvörn.

McGee missti tönn í slagsmálunum en hann kom fyrir rétti í dag og Gerrard mun gefa sinn vitnisburð í málinu á morgun en búist er við því að dæmt verði í málinu á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×