Íslenski boltinn

Gunnar Már: Við viljum ekki lenda neðstir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Már Guðmundsson, leikmaður Fjölnis.
Gunnar Már Guðmundsson, leikmaður Fjölnis. Mynd/Stefán

„Við vildum gera betur í síðasta heimaleiknum. Við reyndum í seinni hálfleik en við komum ekkert inn í leikinn fyrr en í seinni hálfleiknum. Við fáum þá ódýrt mark í andlitið," sagði Gunnar Már Guðmundsson, leikmaður Fjölnis eftir 0-2 tap fyrir Blikum á Fjölnisvellinum í dag.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, setti marga reyndari menn á bekkinn og leyfði ungum leikmönnum að spreyta sig. „Við ætluðum að gefa ungu strákunum tækifæri og reyna að gefa þeim reynslu svo að þeir þekki þetta. Það er hellingur að strákum að koma upp hjá okkur," sagði Gunnar Már.

Gunnar Már spilaði sem framherji í leiknum. „Það er allt í lagi að spila þessa stöðu og ég hef nú gert það áður. Við vorum bara ekki að halda boltanum nægilega vel," sagði Gunnar.

„Við verðum að klára þetta mót því við viljum ekki lenda neðstir. Við eigum Stjörnuna á teppinu í síðasta leik og við klárum þann leik bara í staðinn," sagði Gunnar Már.

Gunnar Már er ekkert farinn að huga að næsta tímabili en spilar líklega bara áfram í Grafarvoginum.

„Ég ætla bara að klára þetta tímabil fyrst áður en ég fer að hugsa um framtíðina. Ég er samningsbundinn Fjölni í eitt ár í viðbót og eins og staðan er í dag þá spila ég með Fjölni í 1. deildinni næsta sumar," sagði Gunnar Már að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×