Enski boltinn

Blackburn og West Ham á eftir Salgado

Ómar Þorgeirsson skrifar
Michel Salgado.
Michel Salgado. Nordic photos/AFP

Ensku úrvalsdeildarfélögin Blackburn og West Ham eru bæði sterklega orðuð við hægri bakvörðinn Michel Salgado sem var leystur undan samningi sínum við Real Madrid á dögunum.

Hinn 33 ára gamli Salgado er sagður áhugasamur um að breyta um umhverfi og vill ekki spila fyrir annað félag á Spáni en Real Madrid.

Knattspyrnustjórinn Sam Allardyce viðurkennir að hann sé að reyna að fá Salgado til Blackburn en leikmaðurinn heimsótti félagið nýlega.

„Það er rétt að við erum að reyna að fá Salgado en það er ekki rétt að hann hafi komið til félagsins á reynslu. Hann kom bara í læknisskoðun og stóðst hana en það liggur ekki endanlega fyrir hvort af félagsskiptunum verður.

Þetta veltur á vilja leikmannsins sjálfs og fjárhagslegum atriðum sem við erum að skoða," segir Allardyce í samtali við Sky Sports fréttastofuna.

Áhugi West Ham virðist aftur á móti einskorðast við hvort að Lucas Neill semji við félagið að nýju eða ekki. Ef Neill leitar á önnur mið vonast West Ham til þess að klófesta Salgado.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×