Erlent

Sóttvarnarlæknir í viðbragðsstöðu vegna svínaflensu

Guðjón Helgason skrifar
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin varaði í dag við mögulegum heimfaraldri svínaflensu. Sjúkdómurinn hefur dregið nærri sjötíu til dauða í Mexíkó síðan um miðjan mars. Sóttvarnarlæknir er í viðbragðsstöðu.

Svínaflensa er öndunarfærasjúkdómur í svínum sem hefur áður greinst í mönnum og jafnvel smitast milli þeirra. Sjúkdómurinn nú er blanda af svínaflensu, venjulegri inflúensu og afbrigði fuglaflensu og hefur þessi samsetning ekki sést fyrr og því alls óvíst að til sé bóluefni. Vísindamenn í Bandaríkjunum munu þó byrjaðir vinnu á einu slíku.

Fleiri en þúsund manns hafa greinst með nýja afbrigðið í Mexíkó og talið að rúmlega sextíu hafi látist af völdum þess. Skólum í Mexíkó hefur verið lokað og fólk hvatt til að halda sig helst heima. Átta hafa greinst í með flensuna í Kaliforníu og Texas í Bandaríkjunum en enginn látist.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hélt neyðarfund um málið í dag en sérfræðingar hennar telja hættu á heimsfaraldri en sjúkdómurinn virðist berast manna á milli.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að samkvæmt viðbragðsáætlun við heimsfaraldri hafi þeir sem að viðbrögðum við honum koma verið upplýstir um stöðu mála. Hann segist að komi til faraldur verði gripið til ráðstafana við heimkomu Íslendinga frá þeim svæðum þar sem sýkin hefur greinst.

„Ja það sem við gerum það er öll umferð verður þá takmörkuð við einn stað og það er auðvitað Keflavíkurflugvöllur og þar myndum við hafa svona innkomuskimun eins og við köllum það. Og ef einhver er með einkenni þá auðvitað fer hann í meðferð og einhver sem hefur verið í nánum tengslum við slíkan myndi fara á fyrirbyggjandi meðferð. Þetta er aðferðin sem við myndum nota. Það er auðvitað fullsnemmt að vera að fullyrða neitt í þá veru að þetta muni gerast en svona myndum við vinna," segir Haraldur í samtali við fréttastofu.

Haraldur segist hafa verið í sambandi við íslendinga á svæðinu en veit ekki til þess að einhver þeirra hafi sýkst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×