Erlent

Telja sig hafa fundið grafhýsi Kleópötru

Óli Tynes skrifar

Markús Antoníus og Kleópatra frömdu sjálfsmorð eftir að þau töpuðu sjóorrustunni gegn Oktavíanusi við Actium árið 31 fyrir Krist. Markús Antoiníus lét fallast á sverð sitt en Kleópatra lét eiturnöðru bíta sig.

Plútark segir okkur að elskendurnir hafi verið lögð saman í grafhýsi, en enginn veit með vissu hvar það grafhýsi er.

Undanfarin þrjú ár hafa fornleifafræðingar verið við uppgröft á musteri fimmtíu kílómetra frá hafnarborginni Alexandríu.

Þeir hafa meðal annars fundið alabasturshöfuð af Kleópötru, tuttugu og tvo peninga með ímynd hennar og grímu sem talin er hafa tilheyrt Markúsi Antoníusi.

Fornleifafræðingarnir hafa nú skoðað svæðið með jarð-ratsjá og meðal annars fundið þrenn djúp göng. Þeir vonast til að finna grafhýsið í einhverju þeirra.

Markús Antoníus og Kleópatra áttu þrjú börn og hún hafði áður eignast einn son með Júlíusi Sesar.

Kleópatra giftist einnig einum bræðra sinna sem ekki var óalgengt á þessum tíma. Hún átti einnig í ástarsambandi við fleiri bræður, en eignaðist engin börn með þeim.

Kleópatra var síðasti Faró Egyptalands. Eftir hennar daga tóku Rómverjar við stjórn landsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×