Enski boltinn

Benitez: Þurfum fullkomið tímabil til þess að vinna titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, stjórnar hér sínum mönnum á æfingu.
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, stjórnar hér sínum mönnum á æfingu. Mynd/AFP

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, viðurkennir það að Liverpool-liðið þurfi að eiga nánast fullkomið tímabilið ef þeim á að takast að vinna enska meistaratitilinn í fyrsta sinn síðan 1990. Liverpool endaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en hefur aldrei fengið jafnmörg stig síðan enska úrvalsdeildin var stofnuð 1992.

„Við verðum að gera allt nánast fullkomið því það kemst enginn upp með að tapa mörgum leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Við þurfum gott andrúmsloft innan liðsins en við höfum yfir mjög góðu liði að ráða í dag," sagði Benitez í viðtali við Liverpool Echo.

„Ég tel að leikmenn liðsins nái vel saman en það sem skiptir mestu máli er að við náum að berjast um titilinn. Við ætlum að reyna að halda okkur í fjórum efstu sætunum og sjá síðan til hvað gerist," segir Benitez og bætir við.

„Við erum með nógu sterkt lið til þess að vinna alla en við þurfum bara að ná upp stöðugleika í liðinu. Við fengum 86 stig á síðasta tímabili og höfum aldrei fengið fleiri stig en við þurfum samt að bæta okkur enn frekar," segir Benitez sem óttast samkeppni frá fleiri liðum en áður.

„Chelsea, United og Arsenal er öll með gríðarlega sterk lið og á næsta tímabili munu örugglega Tottenham, Aston Villa og Manchester City blanda sér í þessa baráttu. Þetta er augljóslega sterkasta deildin," segir Benitez.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×