Innlent

Vilja ábyrgð lengda um allt að sextán ár

Bretar og Hollendingar hafna fyrirvara um að ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna gildi ekki nema til ársins 2024 óháð því hvað þá stendur eftir af skuldinni. Heimildir Fréttablaðsins herma að þjóðirnar geri kröfu um að ákvæðinu verði breytt þannig að ríkisábyrgðin gildi til ársins 2030, og jafnvel sé þá mögulegt að framlengja hana þá um allt að tíu ár.

Samkvæmt heimildum blaðsins er þessi krafa Breta og Hollendinga túlkuð innan stjórnkerfisins sem ótvírætt merki um að þjóðirnar vilji að Ísland greiði hverja krónu sem Icesave-málið kemur til með að kosta. Einnig að Bretar og Hollendingar vilji halda óbreyttum vöxtum á þeim eftirstöðvum lánsins sem kunna að standa eftir árið 2024, en þær gætu numið gríðarlegum fjárhæðum.

Eins og þekkt er hafa Íslendingar gengist undir að greiða 5,55 prósent vexti af láni Breta og Hollendinga og það sem stendur eftir af því eftir sjö ár. Greiðsluna skal inna af hendi á árunum 2016 til 2024. Alls er óvíst hversu há þessi upphæð verður enda er það háð verðbólgu, gengi krónunnar og ekki síst hversu mikið fæst fyrir eignir Landsbankans og gengur upp í höfuðstól skuldarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildu lítið sem ekkert segja fjölmiðlum í gær. Þjóðirnar hefðu farið fram á að upplýsingarnar yrðu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál. Kom þó fram í máli þeirra að hugmyndirnar feli ekki í sér „afslátt" af fyrirvörum Íslands.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér ályktun í gærkvöldi. Þar segir að höfnun Breta og Hollendinga á fyrirvörum Alþingis feli í sér að ríkisábyrgð vegna Icesave taki ekki gildi. Eins að ríkisstjórnin hafi ekki heimild til að víkja frá þeim skýru fyrirvörum sem gildandi lög kveða á um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×